Knattspyrnumaðurinn Emil Pálsson frá Ísafirði sem var endurlífgaður á vellinum í Sogndal á mánudaginn, eftir að hafa hnigið niður snemma í leik, hefur sent frá sér þakkarkveðjur.
Emil dvelur á sjúkrahúsi í Bergen en hann var fluttur þangað beint af vellinum í Sogndal eftir að hafa fengið hjartastopp þegar 12 mínútur voru liðnar af leik liðsins gegn Stjördals-Blink í norsku B-deldinni.
Emil skrifaði á Instagram nú um hádegið:
„Ég vil þakka fjölda fólks í dag. Fyrst og fremst þakka ég starfsfólki og heilbrigðisstarfsfólkinu hjá Sogndal IL. Án þess væri ég ekki á lífi í dag. Ég vil þakka öllum leikmönnum og áhorfendum á leiknum fyrir að bregðast hratt og vel við. Það er mér ómetanlegt að eiga fjölskyldu sem flaug beint hingað frá Íslandi og var við hlið mér þegar ég vaknaði. Ég er snortinn af öllum þeim skilaboðum og jákvæðu hugsunum sem hafa borist mér alls staðar að úr heiminum síðustu daga. Þau gefa mér og fjölskyldu minni styrk til að halda áfram."