Barcelona missti niður þriggja marka forskot

Leikmenn Celta Vigo fagna jöfnunarmarkinu.
Leikmenn Celta Vigo fagna jöfnunarmarkinu. AFP

Barcelona varð að sætta sig við 3:3-jafntefli á útivelli gegn Celta Vigo í 1. deild Spánar í fótbolta í dag eftir að hafa verið með 3:0-forystu í hálfleik.

Ansu Fati, Sergio Busquets og Memphis Depay skoruðu allir fyrir Barcelona í fyrri hálfleik og virtist vera góður andi í liðinu eftir að ljóst varð að goðsögnin Xavi yrði næsti knattspyrnustjóri.

Celta Vigo neitaði hinsvegar að gefast upp og Iago Aspas, fyrrverandi leikmaður Liverpool, minnkaði muninn á 52. mínútu og Nolito, fyrrverandi leikmaður Manchester City, breytti stöðunni í 3:2 á 74. mínútu. Aspas var aftur á ferðinni á sjöttu mínútu uppbótartímans og tryggði Celta ótrúlegt jafntefli.

Tímabilið hefur verið erfitt hjá Barcelona og er liðið í níunda sæti með 17 stig, átta stigum á eftir toppliði Real Sociedad. Celta er í 14. sæti með 12 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert