Barcelona staðfestir ráðningu Xavi

Xavi Hernández er nýr knattspyrnustjóri Barcelona.
Xavi Hernández er nýr knattspyrnustjóri Barcelona. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Barcelona hefur tilkynnt að Xavi Hernández er nýr knattspyrnustjóri karlaliðs félagsins.

Undanfarna daga hefur Barcelona átt í viðræðum við Al-Sadd, katarska félagið sem Xavi hefur stýrt undanfarin ár.

Al-Sadd krafðist þess að Barcelona myndi greiða þær fimm milljónir evra sem var tiltekið í samningi hans við félagið að þyrfti að greiða til að fá hann lausan og voru Börsungar tregir til að greiða þá upphæð samkvæmt spænskum fjölmiðlum.

Tekist hefur að komast yfir þann hjalla og mun Xavi stýra Barcelona næstu þrjú árin, þ.e. út yfirstandandi tímabil og tvö tímabil til viðbótar. Samningur hans við félagið rennur þannig út sumarið 2024.

Xavi er uppalinn hjá Barcelona og vann á ferli sínum með félaginu allt sem hægt var að vinna, alls 25 titla. Hann er næstleikjahæsti leikmaður Barcelona á eftir Lionel Messi með 767 leiki.

Xavi flýgur til Barcelona nú um helgina og verður formlega kynntur sem nýr stjóri félagsins á blaðamannafundi á Nývangi á mánudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert