Íslendingalið Kristianstad tryggði sér í dag sæti í Meistaradeild Evrópu þegar það vann góðan 2:1 útisigur á Piteå í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu kvenna í dag.
Sif Atladóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir voru á sínum stað í byrjunarliði Kristianstad þar sem Sif lék allan leikinn og Sveindís Jane fyrstu 89 mínúturnar. Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar liðið sem kunnugt er.
Hlín Eiríksdóttir var í byrjunarliði Piteå en fór meidd af velli strax á sjöttu mínútu leiksins.
Svíþjóðarmeistarar Rosengård fengu þá bikarinn afhentan eftir að hafa unnið 2:0 útisigur á Djurgården. Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í vörn Rosengård gegn sínum gömlu félögum, en hún skipti frá Djurgården um mitt sumar.
Hallbera Guðný Gísladóttir lék allan leikinn í vörn AIK þegar liðið tapaði 0:2 á útivelli fyrir Linköping.
Þá steinlá Örebro, lið Berglindar Rósar Ágústsdóttur og Cecilíu Ránar Rúnarsdóttur, 2:8, gegn Vittsjö. Berglind Rós fór meidd af velli eftir 14 mínútna leik og Cecilía Rán var varamarkvörður Örebro.
Diljá Ýr Zomers kom inn á sem varamaður eftir klukkutíma leik þegar lið hennar Häcken tapaði 2:3 á útivelli gegn Eskilstuna.
Häcken var fyrir löngu búið að tryggja sér annað sætið í deildinni en baráttan um þriðja sætið var hörð, enda fer Kristianstad í Meistaradeildina með 35 stig, jafnmörg og Eskilstuna en með betri markatölu.