Íslenskur táningur með þrennu í Danmörku

Orri Steinn Óskarsson í leik með FC Köbenhavn.
Orri Steinn Óskarsson í leik með FC Köbenhavn. Ljósmynd/Köbenhavn

Knattspyrnumaðurinn Orri Steinn Óskarsson gerði sér lítið fyrir og skoraði öll þrjú mörk U19 ára liðs FC Kaupmannahafnar er liðið vann Silkeborg í gær, 3:2.

Silkeborg var með 2:0-forystu þegar stundarfjórðungur var eftir en þá gerði Orri sér lítið fyrir og skoraði þrennu og tryggði magnaðan sigur.

Kaupmannahafnarliðið er með fullt hús stiga eftir tíu leiki og hefur Orri verið drjúgur fyrir framan mark andstæðinganna.

Orri, sem er 17 ára, lék með Gróttu áður en hann fór til FCK, en hann er sonur Óskars Hrafns Þorvaldssonar, fyrrverandi þjálfara Gróttu og núverandi þjálfara Breiðabliks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert