AC Milan og Inter Mílanó skildu jöfn, 1:1, er liðin mættust í borgarslag í ítölsku A-deildinni í fótbolta í kvöld. Liðin leika á sama velli, en um var að ræða heimaleik AC Milan.
Tyrkneski landsliðsmaðurinn Hakan Calhanoglu kom Inter Mílanó yfir á 11. mínútu með marki úr víti en hann kom einmitt frá AC Milan fyrir þessa leiktíð. Sex mínútum síðar skoraði Stefan de Vrij sjálfsmark og urðu mörkin ekki fleiri.
Lautaro Martínez fékk gullið tækifæri til að skora fyrir Inter er hann tók víti á 27. mínútu en Ciprian Tatarusanu í marki AC Milan varði frá honum.
Napólí og AC Milan eru jöfn á stigum á toppi deildarinnar með 32 stig. Inter er í þriðja sæti með 25 stig.