Úkraínumaðurinn Andriy Shevchenko hefur verið ráðinn sem nýr þjálfari ítalska knattspyrnuliðsins Genoa.
Shevchenko átti glæstan feril sem knattspyrnumaður þar sem hann vann aragrúa af titlum, m.a. ítölsku deildina og meistaradeildina með AC Milan. Árið 2016 tók hann svo við sem landsliðsþjálfari Úkraínu en það er eina liðið sem hann hefur þjálfað. Hann tekur við Genoa af Davide Ballardini en árangur liðsins undir hans stjórn þótti ekki nægilega góður.
Liðið er í 18. sæti ítölsku A-deildarinnar og er verkefni Shevchenko, sem skrifaði undir samning til ársins 2024, að rétta skútuna af og koma liðinu ofar í deildina.