Íslendingalið Venezia sigraði Roma 3:2 í ítöksku A-deildinni í dag. Arnór Sigurðsson kom inná í hálfleik en Bjarki Steinn Bjarkason sat allan leikinn á varamannabekknum.
Mattia Caldara kom heimamönnum í Venezia yfir strax á þriðju mínútu en Eldor Shomurodov jafnaði fyrir Roma á 43. mínútu. Gestirnir bættu svo við öðru marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks en þar var að verki enski landsliðsmaðurinn Tammy Abraham.
Mattia Aramu jafnaði svo metin úr vítaspyrnu á 65. mínútu áður en David Okereke skoraði sigurmark Venezia níu mínútum síðar.
Vandræði José Mourinho halda því áfram en hann hlaut sinn skerf að gagnrýni eftir að hafa fengið einungis eitt stig úr tveimur leikjum gegn norska liðinu Bodø/Glimt í evrópsku Sambandsdeildinni.