Kasper Dolberg, framherji Nice í Frakklandi og danska landsliðsins í knattspyrnu, greindist með sykursýki eitt á dögunum.
Framherjinn var ekki valinn í danska landsliðshópinn sem mætir Færeyjum og Skotlandi í F-riðli undankeppni HM 2022 í komandi landsleikjaglugga.
Það kom mörgum á óvart að leikmaðurinn væri ekki í danska landsliðshópnum en Dolberg útskýrði í færslu á Instagram að hann hefði ekki gefið kost á sér í verkefnið eftir að hafa greinst með sjúkdóminn.
„Fréttirnar voru ákveðið áfall en það var líka gott að fá greininguna því ég hef verið ólíkur sjálfum mér undanfarið,“ sagði Dolberg.
„Læknar hafa einnig tjáð mér að með réttri meðferð muni sjúkdómurinn hafa lítil sem engin áhrif á ferilinn,“ bætti Dolberg við.
Danski framherjinn, sem er 24 ára gamall, á að baki 32 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað tíu mörk.