Xavi, nýráðinn knattspyrnustjóri Barcelona, kveðst hafa fullan hug á að halda franska kantmanninum Ousmane Dembélé í röðum félagsins en hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við Katalóníustórveldið.
Spænskir fjölmiðlar segja að Dembélé hafi ekki viljað leika áfram með félaginu og Manchester United standi best að vígi með að fá hann í sínar raðir næsta sumar. Þá hefur hann einnig verið sterklega orðaður við Juventus.
Xavi sagði hinsvegar á fréttamannafundi í dag, þegar hann var formlega kynntur sem nýr stjóri Barcelona, að hann væri þegar farinn að vinna í því að halda Frakkanum hjá félaginu.
„Í mínum augum getur Dembélé orðið besti knattspyrnumaður heims með mikilli vinnu. Ég er ekki í vafa um að hann getur náð alla leið og við verðum að hjálpa honum til þess. Þá er nýr samningur að sjálfsögðu forgangsatriði," sagði Xavi.
Dembéle var keyptur til Barcelona fyrir 135 milljónir evra árið 2017 og hefur frá þeim tíma átt í vandræðum með að standa undir verði og væntingum. Hann hefur leikið 119 leiki í öllum mótum með Barcelona, skorað 30 mörk og átt 21 stoðsendingu.
Á þessu tímabili hefur Dembélé verið frá keppni vegna meiðsla. Hann spilaði sinn fyrsta leik gegn Dynamo Kiev í Meistaradeildinni í síðustu viku en meiddist eftir aðeins 25 mínútur og óvíst er hvenær hann spilar aftur.