Íslendingaslagur í Bandaríkjunum?

Arnór Ingvi Traustason er samningsbundinn New England Revolution.
Arnór Ingvi Traustason er samningsbundinn New England Revolution. Eggert Jóhannesson

Tvö Íslendingalið eru komin áfram í úrslitakeppni bandarísku MLS-deildarinnar í knattspyrnu sem hefst eftir landsleikjahlé.

Arnór Ingvi Traustason og liðsfélagar hans í New England Revolution unnu austurdeildina afar sannfærandi en liðið endaði með 73 stig, 19 stigum meira en Philadelphia Union sem hafnaði í öðru sæti austurdeildarinnar.

New York City hafnaði í fjórða sæti austurdeildarinnar með 51 stig en Guðmundur Þórarinsson er samningsbundinn liðinu.

Úrslitakeppnin hefst hinn 20. nóvember en New England situr hjá í fyrstu umferðinni þar sem liðið vann austurdeildina.

New York City mætir hins vegar Atlanta United í fyrstu umferðinni en sigurvegarinn úr því einvígi mætir New England í 2. umferð úrslitakeppninnar en leikirnir í 2. umferðinni fara fram 25.-29. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert