Kvennaknattspyrnan á betra skilið

Caroline Seger. fyrirliði sænska kvennalandsliðsins.
Caroline Seger. fyrirliði sænska kvennalandsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Caroline Seger, fyrirliði sænska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, er ósátt með ákvörðun UEFA og enska knattspyrnusambandsins að spila á leikvöngum sem rúma 4.700 manns og 8.000 manns á EM kvenna í knattspyrnu sem fer fram næsta sumar á Englandi.

Ísland leikur í D-riðli mótsins ásamt Frakklandi, Ítalíu og Belgíu en íslenska liðið leikur tvo leiki á æfingavelli Manchester City þar sem kvennalið City spilar en leikvangurinn rúmar 4.700 manns.

Svíþjóð leikur í C-riðli ásamt Hollandi, Sviss og Rússlandi en Svíar mæta Rússum í Leigh í lokaleik sínum í riðlakeppninni á leikvanginum í Leigh sem rúmar 8.000 manns.

„Ég veit ekki alveg hvað fór í gegnum hausinn á mótahöldurum þegar var ákveðið að spila á þessum leikvöngum,“ sagði Seger í samtali við Aftonbladet.

„Það er búið að leggja miklu vinnu í að gera kvennaboltann öflugri og auka umfjöllun. Ég skil ekki hvernig það getur kvennaknattspyrnunni í hag að spila á svona litlum völlum.

Það verður forvitnilegt að sjá hvort það seljist upp á þessa leiki á minnstu völlunum. Þetta átti að vera stærsta lokamótið hingað til en þetta eru ákveðin vonbrigði. 

Kvennaknattspyrnan á skilið betra og vonandi verður hægt að endurskoða þessa ákvörðun,“ ætti Seger við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert