Xavi Hernández var í dag formlega kynntur til sögunnar sem nýr knattspyrnustjóri Barcelona og þúsundir stuðningsmanna félagsins mættu á Camp Nou til að hylla þennan dáða son félagsins.
„Þakka ykkur öllum fyrir. Ég vil ekki verða of tilfinningaríkur en ég er með gæsahúð. Þetta er stærsta félag heims og ég mun leggja hart að mér til að standa undir væntingum ykkar. Barcelona getur aldrei sætt sig við jafntefli eða tap. Við verðum að vinna alla leiki," sagði Xavi þegar hann ávarpaði stuðningsfólk félagsins.
„Ég mæti hingað vel undirbúinn og með sama DNA og áður. Við verðum að taka völdin á vellinum, vera með boltann, skapa okkur tækifæri og spila af ákefð. Verkefnið sem blasir við er að endurheimta margt sem hefur tapast úr leik liðsins," sagði Xavi sem lék með Barcelona frá unga aldri til ársins 2015 en frá þeim tíma hefur hann verið hjá Al-Sadd í Katar, í fjögur ár sem leikmaður og síðan tvö ár sem aðalþjálfari.
Hann tekur við Barcelona í níunda sæti, ellefu stigum á eftir toppliðinu Real Sociedad og tíu stigum á eftir erkifjendunum í Real Madrid.