Sveindís Jane Jónsdóttir landsliðskona í knattspyrnu er tíundi besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar samkvæmt mati netmiðilsins Damallsvenskan.
Síðustu daga hefur Damallsvenskan verið með niðurtalingu á 50 bestu leikmönnum deildarinnar í ár en keppni þar lauk á laugardaginn. Kristianstad náði þar þriðja sætinu, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur, annað árið í röð, og leikur því á ný í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.
Sveindís kom til Kristianstad í láni frá Wolfsburg í Þýskalandi fyrir þetta tímabil og varð markahæsti leikmaður liðsins í deildinni með sex mörk í nítján leikjum.
„Þessi bráðefnilegi Íslendingur átti stórkostlegt tímabil. Hún er ein af fljótustu leikmönnum deildarinnar og með magnaðri boltatækni sinni er hún eldsnögg að skila boltanum áfram. Sveindís býr líka yfir ótrúlega löngum innköstum sem er magnað sóknarvopn," segir í umsögn Damallsvenskan um Keflvíkinginn.
Guðrún Arnardóttir miðvörður Svíþjóðarmeistara Rosengård er annar Íslendingur á listanum yfir 50 bestu leikmenn deildarinnar en henni er stillt upp í 30. sæti. Guðrún lék alla 12 leiki Djurgården fyrri hluta móts og alla tíu leiki Rosengård eftir það.
„Íslenski miðvörðurinn yfirgaf Djurgården og fór til Rosengård í sumar og fór þar beint í byrjunarliðið. Guðrún hefur ekki virkað alveg jafn örugg með Rosengård en þessi grjótharði miðvörður með góðu skallatæknina átti virkilega gott tímabil í heild sinni." segir í umsögninni um Guðrúnu.