Janne Andersson þjálfari sænska karlalandsliðsins í knattspyrnu kveðst vera undrandi á því hversu vel Zlatan Ibrahimovic sé á sig kominn.
Zlatan er kominn í sænska landsliðið á nýjan leik en hann varð fertugur fyrr á þessu ári og er nýstiginn upp úr meiðslum.
Andersson sagði á fréttamannafundi í dag að hann gæti ekki enn svarað til um hvort Zlatan yrði í byrjunarliðinu þegar Svíar mæta Georgíu í undankeppni HM á fimmtudaginn.
„Við ræddum lauslega saman í dag. Ég þarf að skoða þetta vel en í gærkvöld leit hann vel út, eiginlega mjög vel og ég var hreinlega undrandi að sjá til hans," sagði Andersson en Zlatan sneri í gær aftur í lið AC Milan eftir meiðsli og spilaði allan leikinn í 1:1 jafntefli í grannaslag gegn Inter í ítölsku A-deildinni.
Svíar heyja einvígi við Spánverja um sigur í B-riðli undankeppninnar og þjóðirnar mætast í lokaumferðinni á sunnudaginn kemur. Þar kemur í ljós hvort liðanna kemst beint á HM í Katar og hvort þeirra fer í umspilið. Zlatan gæti því spilað 41 árs gamall á heimsmeistaramótinu í lok næsta árs.
Zlatan hefur spilað sex leiki í A-deildinni með AC Milan á þessu tímabili og skorað í þeim þrjú mörk. hann er þar með kominn með 400 mörk í 618 deildaleikjum á ferlinum og 505 mörk í 843 mótsleikjum með félagsliðum sínum. Með sænska landsliðinu hefur hann skorað 62 mörk í 118 landsleikjum og á þar markametið en er sjötti leikjahæstur í sögu landsliðsins.