Frakklandsmeistarar París Saint-Germain fengu Real Madríd í heimsókn í hinum leik B-riðils Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna, riðlinum sem Breiðablik er í, og unnu þar afar öruggan 4:0 sigur.
Marie-Antoinette Katoto kom PSG á bragðið á 13. mínútu áður en Sara Daebritz tvöfaldaði forystuna skömmu fyrir leikhlé.
Í síðari hálfleik bætti Katoto svo við öðru marki sínu og fjórða markið gerði Rocio, varnarmaður Real Madríd, þegar hún setti boltann í eigið net.
PSG er þar með áfram á toppi B-riðils með fullt hús stiga, 9 stig eftir þrjá leiki, á meðan Real Madríd er áfram í öðru sæti með sex stig.
Kharkiv og Breiðablik reka svo lestina í þriðja og fjórða sæti með eitt stig hvort.