Emil útskrifaður af spítala

Emil Pálsson, til vinstri, gekk til liðs við Sogndal í …
Emil Pálsson, til vinstri, gekk til liðs við Sogndal í ágúst á þessu ári. Ljósmynd/Sogndal

Knattspyrnumaðurinn Emil Pálsson hefur verið útskrifaður af Haukeland-spítalanum í Bergen eftir að hafa farið í hjartastopp í leik með Sogndal fyrir rúmri viku síðan.

Geir Inge Heggestad, fjölmiðlafulltrúi Sogndal, staðfesti þetta í samtali við NRK í dag.

Emil hneig niður á 12. mínútu leiks Sogndal gegn Stjördals-Blink mánudaginn 1. nóvember og fór í hjartastopp.

Endurlífgunartilraunir báru árangur og var Emil fluttur með sjúkraflugi á Haukeland-spítalann, þar sem hann dvaldist undanfarna rúma viku.

Fyrir síðustu helgi sendi hann þakklætiskveðju á Instagram-aðgangi sínum.

„Ég vil þakka fjölda fólks í dag. Fyrst og fremst þakka ég starfs­fólki og heil­brigðis­starfs­fólk­inu hjá Sogn­dal IL. Án þess væri ég ekki á lífi í dag. Ég vil þakka öll­um leik­mönn­um og áhorf­end­um á leikn­um fyr­ir að bregðast hratt og vel við,“ skrifaði Emil meðal annars.

Sogndal hefur boðað til blaðamannafundar á morgun þar sem Emil mun sitja fyrir svörum.

Síðar um kvöldið verður svo leiknum við Stjördals-Blink haldið áfram, en hann var flautaður af í kjölfar þess að Emil hneig niður.

Staðan í leiknum þegar honum var hætt var 1:0, Sogndal í vil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert