„Ég var látinn í um fjórar mínútur“

Emil Pálsson, til vinstri, gekk til liðs við Sogndal í …
Emil Pálsson, til vinstri, gekk til liðs við Sogndal í ágúst á þessu ári. Ljósmynd/Sogndal

Emil Pálsson, leikmaður norska knattspyrnufélagsins Sogndal, kveðst þakklátur fyrir að vera á lífi og reynir að hugsa ekki of mikið um að ferill hans sem knattspyrnumaður sé nú í óvissu eftir að hann fór í hjartastopp í leik með liðinu í síðustu viku.

„Ég er þakklátur fyrir að vera á lífi. Núna er ég bara ótrúlega ánægður. Ég var látinn í um það bil fjórar mínútur,“ sagði Emil á blaðamannafundi í dag.

Ekki er vitað hvað olli hjartastoppinu í leiknum gegn Stjördals-Blink þann 1. nóvember síðastliðinn þrátt fyrir að hann hafi gengist undir ítarlegar rannsóknir.

„Ég tel mig lánsaman að vera á lífi en á sama tíma veit ég ekki ástæðuna fyrir því að ég fór í hjartastopp,“ sagði Emil.

Búið er að græða í hann bjargráð, líkt og var gert við danska landsliðsmanninn Christian Eriksen eftir að hann fór í hjartastopp í leik með Danmörku gegn Finnlandi á EM síðastliðið sumar.

Á blaðamannafundinum hrósaði Emil Sogndal, þar sem hann er á láni frá Sarpsborg, í hástert og einnig björgunarsveitarfólkinu sem var á vellinum. Sagði hann að það hafi verið lán í óláni að þetta hafi gerst á meðan hann var að spila þar sem stutt var í alla aðstoð.

„Að þetta hafi gerst á vellinum er jákvætt því öll sú aðstoð sem ég þurfti á að halda var innan við 100 metra frá mér,“ sagði Emil.

Hann sagðist reyna að hugsa ekki of mikið um út í þann möguleika á að hann geti ekki haldið áfram að vera knattspyrnumaður vegna hjartastoppsins.

„Það er ekki ljóst hvort ég geti verið knattspyrnumaður áfram en ég reyni að hugsa ekki of mikið út í það. Ég mun sækjast eftir faglegri aðstoð hvað andlega þáttinn varðar.

Það er nefnilega mjög sjaldgæft að þetta gerist og hugurinn reikar því vitanlega í þá átt að ég hugsi: „Af hverju gerðist þetta fyrir mig?“ En á sama tíma finnst mér best að hugsa að ég sé enn á lífi.

Lífið er meira en bara fótbolti. Nú verð ég að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér,“ sagði Emil einnig á blaðamannafundinum.

Leik Sogndal gegn Stjördals-Blink var hætt eftir að Emil fór í hjartastopp. Hann hófst að nýju klukkan 16 í dag og leiðir Sogndal enn 1:0 þegar þetta er ritað, en þannig stóðu leikar þegar leiknum var hætt á 12. mínútu þann 1. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert