Fyrrum vonarstjarnan til Ástralíu

Jack Rodwell í leik með Sunderland gegn uppeldisfélagi sínu Everton …
Jack Rodwell í leik með Sunderland gegn uppeldisfélagi sínu Everton á sínum tíma. AFP

Jack Rodwell, sem eitt sinn þótti efnilegasti leikmaður Englands, hefur fundið sér nýtt félag eftir að samningur hans við enska B-deildarliðið Sheffield United rann út í sumar.

Rodwell hefur nú samið við ástralska A-deildarliðið Western Sydney Wanderers og freistar þess að spila sinn fyrsta leik í langan tíma, eða síðan í júlí árið 2020, þegar hann spilaði sinn fyrsta og eina deildarleik fyrir Sheffield United.

Rodwell byrjaði kornungur að spila fyrir Everton og vakti athygli fyrir þroskaðan leik á miðju liðsins. Manchester City hrifust af honum og keyptu árið 2012.

Hann spilaði þó lítið þar, að hluta til vegna meiðsla, og var seldur til Sunderland árið 2014.

Fyrir norðan fór að halla undan fæti og hefur hann alls náð að spila aðeins 27 leiki á síðustu fjórum árum, þar af 22 fyrir Blackburn Rovers tímabilið 2018/2019, en hann lék aðeins þetta eina tímabil fyrir Blackburn áður en hann fór til Sheffield United, hvar hann lék aðeins tvo leiki á tveimur tímabilum.

Rodwell er í dag þrítugur og freistar þess að koma ferlinum aftur á ról í Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert