Aminata Diallo, miðjumaður kvennaliðs París SG í knattspyrnu, var handtekin í dag fyrir að skipuleggja árás á liðsfélaga sinn. Það er franski miðillinn L'Equipe sem greinir frá þessu.
Tveir grímuklæddir menn réðust á Kheiru Hamraoui, liðsfélaga Diallo, hinn 4. nóvember, drógu hana út úr bíl sínum og börðu hana með járnröri í bæði hendur og fætur.
Atvikið átti sér stað fyrir utan Bois de Boulogne í París, skömmu eftir liðsfund kvennaliðsins, en Hamaroui var flutt á sjúkrahús í París þar sem gert var að sárum hennar.
Hún var því fjarverandi þegar PSG vann öruggan 4:0-sigur gegn Real Madrid í B-riðli Meistaradeildarinnar í París í gær en Hamaroui kom til félagsins frá Barcelona í sumar.
Diallo hefur leikið með París SG frá árinu 2016 en hún og Hamaroui eru í mikilli samkeppni um stöðu í liðinu og er það sögð ástæða þess að hún ákvað að skipuleggja árásina. Diallo og Hamaroui eru einnig samherjar í franska landsliðinu.
„PSG staðfestir hér með að Aminata Diallo var handtekinn af lögreglu í morgun og færð til yfirheyrslu vegna árásar sem átti sér stað á leikmann félagsins hinn 4. nóvember,“ segir í tilkynningu PSG.
„Félagið lítur atvikið mjög alvarlegum augum og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða lögreglu að komast til botns í málinu,“ segir ennfremur í tilkynningunni.