Lyon hafði betur gegn Bayern München í uppgjöri toppliða D-riðils Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna í kvöld.
Lyon vann að lokum 2:1 sigur eftir hörkurimmu.
Kadeisha Buchanan kom Bayern yfir eftir 25 mínútna leik en því miður fyrir hana er hún leikmaður Lyon og setti boltann þannig í eigið net.
Í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Janice Cayman metin fyrir Lyon.
Þegar allt virtist stefna í jafntefli skoraði hin þaulreynda Amandine Henry sigurmark Lyon skömmu fyrir leikslok og tryggði þannig nauman sigur.
Lyon er eftir sigurinn í frábærri stöðu í efsta sæti D-riðils með fullt hús stiga að loknum þremur leikjum. Bayern er fimm stigum á eftir í öðru sæti með fjögur stig.
Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sátu allan tímann á varamannabekk Bayern og Sara Björk Gunnarsdóttir er sem kunnugt er í leyfi vegna barneignar.
Í hinum leik riðilsins mættust Benfica og Häcken í Portúgal, þar sem Svíarnir unnu frækinn 1:0 útisigur með sigurmarki Elin Rubensson úr vítaspyrnu seint í leiknum.
Cloé Eyja Lacasse lék allan leikinn í liði Benfica en Diljá Ýr Zomers sat allan tímann á varamannabekk Häcken.
Häcken er þar með komið á blað í riðlinum með þrjú stig og er í þriðja sæti hans, aðeins einu stigi á eftir Bayern. Benfica rekur lestina með eitt stig.
Fyrr í kvöld fóru svo fram tveir leikir í C-riðli Meistaradeildarinnar.
Þar átti Barcelona ekki í nokkrum vandræðum með Hoffenheim og sigruðu 4:0 á heimavelli sínum.
Alexia Putella skoraði tvennu fyrir Börsunga og þeir Jennifer Hermoso og Marta Torrejon skoruðu sitt hvort markið.
Þá heimsótti Arsenal Danmerkumeistara Köge og höfðu öruggan 5:1 útisigur.
Steph Catley, Nikita Parris, Caitlin Foord, Jordan Nobbs og varamaðurinn Anna Patten skoruðu mörk Skyttnanna en Maddie Pokorny skoraði sárabótarmark fyrir Köge.
Barcelona er í efsta sæti C-riðils með fullt hús stiga, níu, og Arsenal kemur þar á eftir með sex stig. Hoffenheim er í þriðja sæti með þrjú stig og Köge er á botninum án stiga.