Ítalska úrvarpsstöðin Retesport ætlar að sniðganga blaðamannafundi portúgalska knattspyrnustjórans José Mourinho. Þetta tilkynntu forráðamenn útvarpsstöðvarinnar í vikunni.
Mourinho, sem er 58 ára, tók við stjórnartaumunum hjá Roma í sumar og eftir góða byrjun hefur hallað undan fæti hjá liðinu sem hefur unnið einn af síðstu sjö leikjum sínum og tapað fjórum þeirra.
Þetta hefur farið í skapið á Mourinho og hefur hann tekið pirringinn út á blaðamannamönnum á fjölmiðlafundum Roma.
„Þú ert kannski gáfaður en það er eins og þú sért að reyna láta fólk halda að þú sért ekki gáfaður, eða kannski ertu bara ekki gáfaður yfir höfuð,“ sagði Mourinho við Marco Juric, starfsmann Retesport á blaðamannafundi um síðustu helgi en Juric spurði Mourinho hvort hann hefði viljað gera eitthvað öðruvísi undanfarnar vikur.
„Retesport hefur ákveðið að sýna samstöðu með Marco Juric vegna svars Herra Mourinho á blaðamannafundi Roma á laugardaginn,“ segir í tilkynningu Retesport.
„Retesport hefur því ákveðið að mæta ekki á blaðamannafundi Roma,“ segir ennfremur í tilkynningunni.