Gæti hætt vegna hjartavandamála

Sergio Agüero gæti þurft að leggja knattspyrnuskóna á hilluna.
Sergio Agüero gæti þurft að leggja knattspyrnuskóna á hilluna. AFP

Sergio Agüero, leikmaður knattspyrnuliðs Barcelona á Spáni, íhugar nú að leggja skóna á hilluna vegna hjartavandamála. Það er Catalunya Rádio sem greinir frá þessu.

Framherjinn, sem er 33 ára gamall, var greindur með óreglulegan hjartaslátt á dögunum en hann þurfti að fara af velli í leik Barcelona og Alavés í spænsku 1. deildinni í byrjun mánaðarins vegna öndunarerfiðleika.

Barcelona tilkynnti á dögunum að Agüero yrði frá í að minnsta kosti þrjá mánuði á meðan hann myndi gangast undir frekari rannsóknir.

Catalunya Rádio greinir frá því að hjartavandamál Agüero sé mun flóknara en í fyrsta var talið og að hann gæti þurft að leggja skóna á hilluna vegna þessa.

Framherjinn gekk til liðs við Barcelona í sumar á frjálsri sölu frá Manchester City en hann hefur einnig leikið með Independiente og Atlético Madrid á ferlinum.

Þá á hann að baki 101 A-landsleik fyrir Argentínu þar sem hann hefur skorað 41 mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert