Hlutirnir í móðu fyrir hjartastoppið

Emil Pálsson, leikmaður Sogndal, er þakklátur fyrir að vera á …
Emil Pálsson, leikmaður Sogndal, er þakklátur fyrir að vera á lífi eftir að hafa farið í hjartastopp á mánudaginn síðasta. Ljósmynd/Sarpsborg

„Ég er þakklátur fyrir það að vera á lífi,“ sagði Emil Pálsson, leikmaður norska knattspyrnuliðsins Sogndal, í samtali við mbl.is.

Emil, sem er 28 ára gamall, fór í hjartastopp í leik Sogndal og Stjördals-Blink í norsku B-deildinni á Fosshaugane-vellinum í Sogndal mánudaginn 1. nóvember en hann var fluttur með meðvitund á Haukeland-háskólasjúkrahúsið í Bergen.

„Heilsan er fín þessa stundina og það hefur verið góður stígandi í þessu hjá mér, síðustu daga. Ég er hægt og rólega að safna upp fyrri styrk og heilsan er nokkurn vegin eins og hún var áður en þetta gerðist allt saman,“ sagði Emil.

Emil Pálsson, til vinstri, gekk til liðs við Sögndal á …
Emil Pálsson, til vinstri, gekk til liðs við Sögndal á láni frá Sarpsborg í ágúst á þessu ári. Ljósmynd/Sögndal

Man ekki eftir atvikinu

Atvikið átti sér stað eftir tólf mínútna leik en Emil lá meðvitundarlaus á vellinum í tíu mínútur á meðan læknar, sjúkraþjálfarar og sjúkraflutningamenn hlúðu að honum.

„Ég fann ekki fyrir neinu á leikdegi og það var ekkert óeðlilegt í gangi. Það var ekkert sem gaf það tilkynna að þetta væri að fara gerast. Upphitunin gekk vel og svo byrjar leikurinn. Við skorum eftir sjö mínútuna leik og ég  man eftir því og að fagna markinu. Eftir að leikurinn byrjar aftur þá man ég ekki mikið og hlutirnir í hálfgerðri móðu en þetta gerist fimm mínútum áður en ég fer í hjartastopp.

Það næsta sem ég man er að vakna á spítalanum í Bergen. Ég vissi ekkert hvað var í gangi eða hvað hefði gerst. Klukkan í herberginu var hálf fimm og ég hafði ekki hugmynd um hvort það væri dagur eða nótt. Ég vissi ekkert hvaða viku- eða mánaðardagur væri sem dæmi og svo kom læknirinn til mín og útskýrði fyrir mér hvað hefði gerst.

Þegar svona hlutir gerast þá meðtekur maður þá ekki strax og persónulega er ég  ekki ennþá búinn að meðtaka þetta í raun og veru. Það var hins vegar algjörlega ómetanlegt fyrir mig að fjölskyldan mín var komin til Bergen rétt um klukkutíma eftir að ég vaknaði og hún var mér við hlið síðan.“

Emil Pálsson ásamt og Viðari Ara Jónssyni en þeir voru …
Emil Pálsson ásamt og Viðari Ara Jónssyni en þeir voru samherjar hjá Sandefjord í tvö tímabil. Ljósmynd/Sandefjord

Gríðarlega þakklátur stuðningnum

Fyrstu sólahringirnir eftir slysið eru í hálfgerði móðu hjá Emil.

„Mér var haldið sofandi fyrsta sólahringinn og það var sérstaklega erfitt fyrir fjölskylduna. Það þarf fyrst og fremst að passa upp á að það sé í lagi með hjartað þegar svona kemur fyrir og það er lykilatriði að hjartað stoppi ekki aftur. Ég var tengdur í allskonar tæki þessa fyrstu sólahringa og var í raun bara rúmliggjandi, ég var þess vegna nánast fastur í sömu stellingunni fyrstu dagana.

Þetta var auðvitað mikið áfall, sérstaklega andlega, en á sama tíma hef ég fundið fyrir ótrúlegum stuðningi, allsstaðar að úr heiminum og auðvitað sérstaklega frá Íslandi. Ég get ekki talið öll skilaboðin sem ég hef fengið en þessi stuðningur hefur veitt mér þvílíkan kraft og ég er gríðarlega þakklátur öllum þeim sem tóku sér tíma til þess að senda mér skilaboð og styðja við mig í þessu.“

Emil Pálsson fagnar marki með FH sumarið 2017 en hann …
Emil Pálsson fagnar marki með FH sumarið 2017 en hann lék með Hafnfirðingum frá 2011 til ársins 2017, að undanskyldu tímabilinu 2015 þar sem hann var á láni hjá Fjölni. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Þakklæti efst í huga

Emil er kominn heim til Íslands en óvíst er hvað tekur við hjá honum í framhaldinu.

„Eins og staðan er núna er framtíðin frekar óljós hjá mér. Ef ekki hefði verið fyrir vel unnin störf hjá læknum, sjúkraþjálfurum og sjúkraflutningamönnum þá væri ég ekki á lífi í dag.

Það eina sem kemst að hjá mér í dag er þakklæti í garð þeirra sem björguðu lífi mínu og hvað tekur við á næstunni er ekki eitthvað sem ég er að einbeita mér að núna,“ bætti Emil við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert