Enska karlalandsliðið í knattspyrnu er hársbreidd frá því að tryggja sér sæti á HM í Katar á næsta ári eftir að hafa unnið einkar öruggan 5:0 sigur á Albaníu á Wembley í I-riðli undankeppni Evrópuþjóða í kvöld.
Harry Kane skoraði þrennu í fyrri hálfleik, auk þess sem Harry Maguire og Jordan Henderson komust á blað. Öll fimm mörkin komu í fyrri hálfleik.
Englandi nægir jafntefli gegn San Marinó á mánudag til þess að tryggja sætið á HM.
Pólland tryggði sér á sama tíma að minnsta kosti 2. sæti riðilsins og þar með umspilssæti fyrir HM með öruggum 4:1 útisigri á Andorra.
Robert Lewandowski skoraði tvennu fyrir Pólland og Kamil Jozwiak og Arkadiusz Milik skoruðu hin mörkin. Marc Vales skoraði mark Andorra.
Danmörk var þegar búið að vinna F-riðilinn og tryggja sér sæti á HM og hafði betur gegn Færeyjum, 3:1, í kvöld.
Andreas Skov Olsen, Jakob Bruun Larsen og Joakim Mæhle skoruðu mörk Dana.
Danmörk er með fullt hús stiga, 27, eftir að hafa unnið alla níu leiki sína í undankeppninni.
Klæmint Olsen, sem skoraði mark Færeyinga, er fyrsti leikmaðurinn til þess að skora gegn Danmörku í undankeppninni í leikjunum níu, en Danir höfðu haldið marki sínu hreinu í fyrstu átta leikjum hennar.
Ítalía og Sviss gerðu svo 1:1 jafntefli í C-riðlinum og eru því áfram hnífjöfn að stigum fyrir lokaumferðina þar sem það ræðst hvort liðið fer beint á HM og hvort fer í umspil.
Silvan Widmer kom Sviss yfir snemma leiks en Giovanni Di Lorenzo jafnaði metin síðar í fyrri hálfleiknum.
Ítalía hefði getað tryggt sér sigurinn á 90. mínútu en Jorginho þrumaði yfir markið úr vítaspyrnu.
Fyrir lokaumferðina í riðlinum er Ítalía í efsta sætinu með betri markatölu en Sviss.