Sá sigursælasti snýr aftur til Barcelona

Daniel Alves fagnar marki með Barcelona árið 2015.
Daniel Alves fagnar marki með Barcelona árið 2015. AFP

Daniel Alves, sigursælasti leikmaður knattspyrnusögunnar, er á leið aftur til Barcelona. Brasilíski bakvörðurinn er 38 ára gamall en enn í fullu fjöri.

Al­ves, sem hef­ur unnið til 43 titla á mögnuðum ferli, verður kynntur sem nýr leikmaður Barcelona í næstu viku eftir að hann fundar með forráðamönnum félagsins.

Þetta er fullyrt í spænska miðlinum Diario Sport.

Alves, sem er laus allra mála eftir að hafa yfirgefið Sao Paulo í heimalandinu í haust, bauð félaginu þar sem hann vann flesta af titlunum sínum 43 fram krafta sína.

Samkvæmt fjölmiðlum á Spáni höfðu forráðamenn Börsunga upphaflega hafnað því boði en eftir að knattspyrnustjórinn Xavi, sem var samherji Alves til margra ára hjá Barcelona, gaf grænt ljós á vistaskiptin er allt útlit fyrir að Brassinn knái snúi aftur til Katalóníu á gamals aldri.

Alves er sagður munu sætta sig við að vera lægst launaði leikmaður félagsins þar sem hann geri sér fulla greina fyrir peningavandamálum Börsunga.

Uppfært kl. 20:44: Barcelona hefur á heimasíðu sinni staðfest að Alves snúi aftur. Hann hefji æfingar í næstu viku en megi ekki byrja að spila fyrr en í janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert