Bandaríkin unnu erkifjendurna

Tyler Adams, Weston McKennie og Christian Pulisic fagna marki McKennie …
Tyler Adams, Weston McKennie og Christian Pulisic fagna marki McKennie í nótt. AFP

Bandaríska karlalandsliðið í knattspyrnu vann sterkan 2:0-heimasigur á nágrönnum sínum og erkifjendum í Mexíkó í undankeppni HM í Norður- og Mið-Ameríku í nótt og smeygði sér um leið upp í efsta sæti keppninnar.

Christian Pulisic og Weston McKennie skoruðu mörk Bandaríkjamanna og komu þau bæði seint í leiknum.

Pulisic skoraði á 74. mínútu og McKennie innsiglaði sigurinn á 85. mínútu.

Bandaríkin jöfnuðu þar með Mexíkó að stigum. Þau eru bæði með 14 stig að loknum sjö umferðum en Bandaríkin eru með betri markatölu og því á toppnum.

Skammt undan er svo Kanada með 13 stig í þriðja sætinu.

El Salvador og Jamaíka gerðu þá 1:1-jafntefli í sömu keppni í nótt.

Michail Antonio hafði komið Jamaíku yfir með sínu fyrsta landsliðsmarki á 82. mínútu en Alex Roldán jafnaði metin fyrir El Salvador á 90. mínútu.

Pablo Punyed, leikmaður Víkings úr Reykjavík, sat allan tímann á varamannabekk El Salvador.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert