Fékk eitt fljótasta rauða spjald sögunnar

Robert Lewandowski með boltann í leik Andorra og Póllands í …
Robert Lewandowski með boltann í leik Andorra og Póllands í gærkvöldi. AFP

Ricard Fernández, framherji Andorra, entist ekki lengi á vellinum þegar Pólland kom í heimsókn í I-riðli undankeppni Evrópuþjóða fyrir HM 2022 í knattspyrnu karla í gærkvöldi.

Fernández gaf Kamil Glik, miðverði Póllands, olnbogaskot eftir 11 sekúndna leik, var dæmdur brotlegur fyrir það og fékk svo reisupassann þegar 20 sekúndur voru liðnar af leiknum.

Leikurinn aðeins rétt byrjaður og Andorra strax orðið einum færri.

Liðið tapaði að lokum 1:4, sem verða að teljast prýðis úrslit miðað við getumun og að þurfa að spila allan leikinn einum færri.

Lee Todd er þess vafasama heiðurs aðnjótandi að hafa fengið fljótasta rauða spjald knattspyrnusögunnar þegar hann var rekinn af velli eftir tvær sekúndur í neðrideildarleik á Englandi árið 2000.

Þá flautaði dómarinn leikinn á, beint í eyrað á Todd sem hrópaði: „Andskotinn dómari, þetta var hátt!“ og fékk beint rautt spjald fyrir að blóta!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert