Norðmenn misstu annað sætið

Martin Ödegaard, fyrirliði Norðmanna, fórnar höndum í dag.
Martin Ödegaard, fyrirliði Norðmanna, fórnar höndum í dag. AFP

Noregur missti annað sæti G-riðils í undankeppni HM karla í fótbolta í dag er liðið gerði markalaust jafntefli við Lettland á heimavelli.

Norðmenn voru mun sterkari aðilinn í leiknum og fengu góð færi, sérstaklega í seinni hálfleik, en tókst ekki að koma boltanum framhjá Roberts Ozols sem átti stórleik í marki Lettlands.

Tyrkir nýttu sér seinheppni Norðmanna fyrir framan markið og fóru upp í annað sætið með 6:0-stórsigri á Gíbraltar á heimavelli. Halil Dervisoglu skoraði tvö mörk fyrir Tyrkland og þeir Karem Aturkoglu, Merih Demiral, Serdar Dursun og Mert Muldur komust einnig á blað.

Holland getur tryggt sér toppsæti riðilsins og sæti á HM með sigri á Svartfjallalandi á útivelli í kvöld. Holland er með 19 stig á toppnum og Tyrkland og Noregur koma þar á eftir með 18 en Tyrkir eru með betri markatölu en þeir norsku.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert