Sleppt úr haldi og hafnar aðkomu að árás

Kheira Hamraoui og Aminata Diallo.
Kheira Hamraoui og Aminata Diallo. AFP

Aminötu Diallo, miðjumanni kvennaliðs Parísar Saint-Germain, hefur verið sleppt úr haldi lögreglu án ákæru eftir að hafa verið handtekin vegna gruns um að hafa skipulagt líkamsárás á liðsfélaga sinn Kheiru Hamraoui.

Grímuklæddir menn réðust á Hamraoui og börðu hana með járnrörum á götum Parísar, sem varð til þess að hún var flutt á spítala og missti af leik PSG gegn Real Madríd í riðli Breiðabliks, B-riðlinum, í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku.

Diallo var sögð hafa skipulagt árásina þar sem Hamraoui væri framar í goggunarröðinni í baráttunni um byrjunarliðssæti á miðju PSG og að Diallo vildi því bola henni burt.

Í yfirlýsingu sem lögfræðingur Diallo sendi til AFP-fréttaveitunnar segir um málið:

„Aminata Diallo fordæmir fullkomlega uppskáldaða atburðarás um ríg milli hennar og Kheiru Hamraoui sem rennir stoðum undir það að hún myndi vilja láta hann bitna á samherja hennar. Þessi kenning samræmist raunverulegu sambandi þeirra engan veginn.

Rannsakendur eru núna að skoða mun alvarlegri vísbendingar sem bendla skjólstæðing minn ekki á neinn hátt við málið.

Aminötu Diallo þykir ofstækið í fjölmiðlum mjög miður þar sem þeir voru nú þegar búnir að dæma hana án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því, og hún vill koma því skýrt á framfæri að hún muni ekki hika við að verja sig fyrir dómstólum gegn ærumeiðingum ef þörf krefur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert