Finnland vann í dag afar góðan 3:1-útisigur á Bosníu í undankeppni HM karla í fótbolta.
Finnar fengu víti á 25. mínútu en Teemu Pukki náði ekki að skora. Fjórum mínútum síðar lagði hann hins vegar upp fyrsta markið á Marcus Forss.
Verkefnið varð erfiðara fyrir finnska liðið á 37. mínútu þegar Jukka Raitala fékk beint rautt spjald. Þrátt fyrir það tvöfaldaði Robin Lod forskot finnska liðsins á 50. mínútu.
Luka Menalo minnkaði muninn fyrir Bosníu á 69. mínútu en Finnar áttu lokaorðið því Daniel O'Shaughnessy skoraði þriðja markið á 73. mínútu og þar við sat.
Frakkland er í toppsæti D-riðils með 12 stig. Finnland er í öðru með 11 og Úkraína í þriðja með 9.