Fékk heimsmeistaratreyju Zidane í plastpoka

Zinedine Zidane.
Zinedine Zidane. AFP

Danny Murphy, fyrrverandi leikmaður Liverpool, rifjaði á dögunum upp skondna sögu af því þegar Gérard Houllier heitinn, knattspyrnustjóri hans hjá þeim rauðklæddu færði honum væna gjöf í fremur óhefðbundnum umbúðum.

„Gérard Houllier var stjórinn minn hjá Liverpool og hann hafði mikil áhrif á og átti vingott við Zidane frá dögum þeirra í Frakklandi.

Houllier hélt sambandi við Zidane í gegnum árin og dag einn eftir að ég hafði verið valinn í enska landsliðið fór ég á skrifstofu Houlliers,“ sagði Murphy á talkSPORT útvarpsstöðinni.

Murphy lék sinn besta fótbolta á ferlinum undir stjórn Houlliers og unnu þeir saman alla stjóratíð Frakkans hjá Liverpool frá 1998 til 2004.

Danny Murphy í leik með Liverpool á sínum tíma.
Danny Murphy í leik með Liverpool á sínum tíma. mbl.is

„Ég var búinn að vera á ákveðinni vegferð með Houllier hjá Liverpool. Ég fór úr því að vera sendur til baka á lán til Crewe í að koma til baka, komast í byrjunarliðið, verða fastamaður, vinna nokkra titla og komast í enska landsliðið.

Hann hóaði í mig á skrifstofu sína dag einn og var með plastpoka úr Tesco-vesluninni eða álíka, fleygði pokanum á skrifborðið og sagði: „Þetta er handa þér.“ Maður hugsaði bara með sér hvað væri eiginlega í gangi,“ sagði Murphy og hélt áfram:

„Ég tók treyju úr pokanum og þar stóð „Zidane“ aftan á með merki úr úrslitaleik HM á erminni og Houllier sagði: „Zinedine gaf mér treyjuna eftir úrslitaleikinn en ég vil gefa þér hana.“ Ég var í svolitlu áfalli!“

Um var að ræða treyju sem Zidane klæddist þegar hann skoraði tvö mörk í 3:0 sigri Frakklands gegn Brasilíu í úrslitaleik HM 1998 í Frakklandi.

Zidane skorar annað marka sinna í úrslitaleik HM árið 1998.
Zidane skorar annað marka sinna í úrslitaleik HM árið 1998. mbl.is

„Hann sagði: „Ég er búinn að tala við hann. Þetta er í fínu lagi. Ég ætla að gefa þér treyjuna sem verðlaun fyrir þá vegferð sem þú hefur verið á.“ Hann útskýrði það fyrir mér að hann fór í nokkurs konar vegferð með Zidane.

Hann var ekki að bera mig saman við Zidane svo það sé alveg á hreinu! Þetta voru bara verðlaun frá honum, hann vildi gefa mér eitthvað til þess að láta mig vita að ég hafi staðið mig vel,“ sagði Murphy einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert