Franska lögreglan rannsakar nú hvort fyrrverandi kærasti Kheiru Hamraoui, leikmanns París SG í fótbolta, hafi skipulagt árás á miðjumanninn. Grímuklæddir menn réðust á Hamaraoui og lömdu hana í fæturna með járnrörum á götum Parísar á miðvikudaginn var. Hún hefur ekki getað leikið með liðinu síðan.
Aminata Diallo, liðsfélagi Hamraoui, var handtekin samdægurs grunuð um að hafa skipulagt árásina, þar sem hún var talin öfundsjúk yfir að Hamraoui var á undan henni í goggunarröðinni hjá liðinu. Henni var hins vegar sleppt úr haldi án ákæru og nú beinast spjótin að fyrrverandi kærasta Hamraoui.
Franska dagblaðið L'Équipe greinir frá því að bæði Diallo og Hamraoui hafi verið yfirheyrðar eftir ársásina og Diallo í kjölfarið sleppt, en hún liggur ekki lengur undir grun.
Þá greinir blaðið frá því að fyrrverandi kærasti Hamraoui hefði hringt í Diallo og aðra liðsfélaga hennar og sagt þeim að Hamraoui hefði eyðilagt líf hans. Ætlaði hann að hefna sín á franska leikmanninum. Kærastinn fyrrverandi hefur ekki verið handtekinn.