Lyon vann 6:1-stórsigur á heimavelli gegn París SG í toppslag frönsku 1. deildarinnar í fótbolta í kvennaflokki í kvöld. Fyrir leikinn voru liðin jöfn á stigum með full hús eftir sjö leiki.
Lyon var hins vegar mikið sterkari aðilinn í kvöld og Catarina Macario kom liðinu yfir úr víti á 14. mínútu. Danielle van de Donk bætti við öðru marki á 17. mínútu og vont varð verra fyrir PSG þegar hin kanadíska Ashley Lawrence fékk beint rautt spjald á 26. mínútu.
Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik en Melvine Malard bætti við þriðja marki Lyon á 53. mínútu og Damaris Wienke því fjórða aðeins fimm mínútum síðar. Amanda Ilestedt lagaði stöðuna fyrir PSG á 74. mínútu, 4:1.
Norska markadrottningin Ada Hegerberg kom inn á hjá Lyon á 74. mínútu og fjórum mínútum síðar skoraði hún sitt fyrsta mark í um tvö ár, en hún er nýkomin til baka eftir 20 mánaða fjarveru vegna meiðsla. Hún bætti við öðru á 82. mínútu og gulltryggði stórsigur Lyon.
Næsti leikur Parísarliðsins er gegn Real Madrid í B-riðli Meistaradeildar Evrópu, en Breiðablik er í sama riðli.
Sara Björk Gunnarsdóttir var ekki í leikmannahópi Lyon þar sem hún er í barneignaleyfi.