Knattspyrnuliðið AS Vénus, sem er meistaralið Kyrrahafseyjunnar Tahiti, lagði um helgina land undir fót og fór alla leið til Frakklands til að spila einn leik í bikarkeppninni þar í landi.
Tahiti er undir frönskum yfirráðum en með sjálfsstjórn eins og margar gamlar nýlendur Frakka. Meistaralið landsins fær keppnisrétt í frönsku bikarkeppninni og kemur inn í hana í sjöundu og næstsíðustu umferð undankeppninnar en liðin sem komast í gegnum áttundu umferð vinna sér sæti í 64 liða úrslitum.
Vénus náði þessum áfanga og dróst gegn franska D-deildarliðinu Trélissac í sjöundu umferðinni og liðin mættust í franska bænum Trélissac í gær. Heimamenn unnu, 2:0, og Tahitibúarnir eru þar með úr leik og koma ekki frekar við sögu í bikarkeppninni.
Um það bil 16 þúsund kílómetrar eru frá Tahiti til Trélissac og liðsmenn Vénus flugu frá heimalandinu til Los Angeles, þaðan til Amsterdam, síðan til Bordeaux, og að lokum beið 90 mínútna akstur til smábæjarins þar sem leikurinn fór fram. Þá var að sjálfsögðu eftir að fara sömu leið til baka að leik loknum.
Ekkert lið hefur ferðast jafnlangt til leiks í frönsku bikarkeppninni og AS Vénus en mörg hafa samt farið í langar ferðir í þessa leiki. Meistaralið frá gömlu nýlendunum Guadeloupe, Frönsku Guiönu, Martinique, Mayotte, Nýju-Caledóníu, Réunion, Saint Martin og Saint Pierre Miquelon eru öll með keppnisrétt og taka reglulega þátt í keppninni. Fyrir tveimur árum vakti mikla athygli þegar Saint-Pierroise, meistaralið Réunion, eyju í Indlandshafi, komst í 32ja liða úrslit franska bikarsins, en það var um það bil helmingi styttra ferðalag en leikmenn AS Vénus þurftu að leggja á sig fyrir leikinn í Trélissac.
Um það bil 50 stuðningsmenn Vénus fylgdu liðinu til Frakklands og leikurinn var sýndur beint í sjónvarpi á Tahiti.