Sjálfsmark skaut Króötum á HM

Króatía er komin á HM eftir sigur á Rússlandi.
Króatía er komin á HM eftir sigur á Rússlandi. AFP

Króatía tryggði sér sæti á lokamóti heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Katar á næsta ári með 1:0-sigri á Rússlandi á heimavelli í dag. Sjálfsmark frá Fedor Kudryashov réð að lokum úrslitum.

Fyrir leik var ljóst að jafntefli nægði Rússlandi til að halda toppsæti H-riðils og rússnesku gestirnir lögðu upp með að verjast vel. Það gekk að miklu leyti vel en Króatar voru miklu meira með boltann og áttu fjölmargar tilraunir án þess að koma boltanum framhjá Matey Safonov í marki Rússlands.

Sókn Króata bar loks árangur þegar Kudryashov setti boltann í eigið mark af stuttu færi á 81. mínútu eftir fyrirgjöf frá vinstri. Eftir markið reyndu Rússar hvað þeir gátu til að jafna, en án árangurs. Króatía vinnur því riðilinn og fer beint á lokamótið á meðan Rússland fer í umspil.

Króatía endar með 23 stig og Rússland 22. Slóvakía tryggði sér þriðja sætið í riðlinum með 6:0-stórsigri á Möltu á útivelli þar sem Ondrej Duda og Albert Rusnák skoruðu tvö mörk hvor og Slóvenía endaði í fjórða sæti eftir 2:1-heimasigur á Kýpur þar sem Adam Gnezda skoraði sigurmarkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert