Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skoraði í dag tvö mörk í öðrum leiknum í röð fyrir meistaralið Apollon Limassol í efstu deild kvenna í fótbolta á Kýpur.
Þórdís kom inn á sem varamaður strax á 17. mínútu leiksins gegn Chrisomilia á útivelli en í byrjun síðari hálfleiks breytti hún stöðunni úr 2:1 í 4:1 með tveimur mörkum með stuttu millibili. Þar með var mótspyrna heimaliðsins brotin á bak aftur, Apollon raðaði inn mörkum og vann stórsigur, 9:1.
Þórdís hefur nú skorað fimm mörk í fjórum leikjum með Apollon það sem af er þessu tímabili.
Birgitta Hallgrímsdóttir og Þorbjörg Jóna Garðarsdóttir leika með Omonia Nikosía í sömu deild og þær komu báðar inn á sem varamenn í 10:0 sigri liðsins á botnliðinu Apollon Lympion í dag. Birgitta skoraði þrennu í síðasta leik og hefur skorað fimm mörk í fyrstu fimm leikjum liðsins.
Omonia og Nea Salamis eru með 15 stig á toppi deildarinnar og Apollon er með 13 stig í þriðja sætinu og er með markatöluna 31:4.