England rótburstaði San Marínó 10:0 í I-riðli undankeppni HM karla í knattspyrnu í kvöld og tryggði sér um leið sæti á HM í Katar á næsta ári.
Harry Kane skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleik þegar England var 6:0 yfir. Þar af tvö mörk úr vítaspyrnum. Kane skoraði þrennu gegn Albaníu um daginn og skoraði því sjö mörk í landsleikjunum tveimur. Hann fór af leikvelli eftir liðlega klukkutíma leik.
Harry Maguire, Emile Smith-Rowe, Tyrone Mings, Tammy Abraham og Bukayo Saka skoruðu einnig en lið San Marínó lék manni færri frá 68. mínútu.
England hafnaði í efsta sæti riðilsins en Pólland varð í öðru sæti og fer í umspil.
Harry Kane hefur þá skorað 48 mörk fyrir A-landsliðið. Jafnaði hann þar með Gary Lineker sem einnig skoraði 48 og er aðeins marki á eftir Sir Bobby Charlton sem lengi átti markametið. Wayne Rooney tókst að slá Charlton við og skoraði 53 mörk fyrir England.