Velski knattspyrnumaðurinn Joe Ledley tilkynnti í gær að hann væri búinn að leggja skóna á hilluna, 34 ára að aldri.
Ledley, sem lék meðal annars með Crystal Palace, Cardiff City, Celtic og Derby County á ferlinum, tilkynnti um ákvörðunina á Instagramaðgangi sínum. Þar leit hann um öxl og þakkaði fyrir sig.
Á ferlinum lék Ledley 77 landsleiki fyrir Wales og var einn lykilmanna liðsins þegar það komst alla leið í undanúrslit á EM 2016 í Frakklandi.
Í lok færslu sinnar á Instagram sagðist hann sérlega þakklátur landsliðinu og að því næði ákvörðunin um að hætta knattspyrnuiðkun ekki til þess, alltaf mætti kalla til hans ef þörf krefðist.
„Svo er það Wales, mitt heittelskaða Wales. Ég gæti aldrei ímyndað mér að hætta með landsliðinu þannig að ég mun verða til taks að eilífu! Vinsamlegast ekki fara með mig heim,“ skrifaði Ledley, líklega meira í gamni en alvöru.
Ledley lék síðasta landsleik sinn fyrir Wales árið 2018.