Knattspyrnusamband Suður-Afríku hyggst krefjast þess að leikur karlalandsliðsins gegn Gana í undankeppni HM 2022 í gærkvöldi verði endurtekinn vegna vafasams vítaspyrnudóms sem leiddi til sigurmarks Gana.
Leiknum lauk 1:0 sem þýðir að Gana er komið áfram í umspil um sæti á HM á meðan Suður-Afríka situr eftir með sárt ennið, en liðinu nægði jafntefli í gær til þess að komast í umspilið.
André Ayew skoraði úr vítaspyrnunni sem var dæmd eftir að Daniel Amartey féll við í vítateignum án þess að nokkur virtist snerta hann.
„Við munum skrifa bæði CAF [Knattspyrnusambandi Afríku] og FIFA [Alþjóðaknattspyrnusambandinu], í fyrsta lagi til þess að fá framkvæmd leiksins á hreint og í öðru lagi til þess að mótmæla nokkrum ákvarðana dómarans í gær,“ sagði Tebogo Mothlante, forseti knattspyrnusambands Suður-Afríku í yfirlýsingu í dag.
Hann sagði sambandið hafa áhyggjur yfir lögmæti ákvarðarinnar um vítaspyrnudóminn og frammistöðu dómaraþríeykisins frá Senegal yfir höfuð.
„Okkur líður sem við höfum verið rændir því þetta var ekki bara afmarkað atvik í tengslum við vítaspyrnuna.
Það var fjöldi vafasamra ákvarðana sem dómararnir tóku og við munum fá sérfræðing til þess að skoða hin atvikin svo við séum með sem sterkast mál,“ bætti Mothlante við.
Hann sagði fordæmi fyrir því að leikur í undankeppni sé endurtekinn þar sem Suður-Afríka þurfti einmitt að gera það árið 2017 og að litið verði til þeirrar ákvörðunar í viðleitni knattspyrnusambandsins til þess að fá að endurtaka leikinn við Gana.
Eftir að hafa upphaflega unnið Senegal 2:1 í umspili um sæti á HM 2018 tók FIFA þá ákvörðun að spila skyldi leikinn að nýju þar sem ganverskur dómari leiksins, Joseph Lamptey, hafi haft það að markmiði að sem fæst mörk yrðu skoruð og hafi tekið að minnsta kosti tvær alrangar ákvarðanir sem hafi hjálpað Suður-Afríku að vinna leikinn.
Leikurinn var endurtekinn, Senegal vann hann 2:0 og komst á HM í Rússlandi.
Lamptey var dæmdur í ævilangt bann frá dómgæslu.