Lék á ný eftir níu mánaða keppnisbann

André Onana er búinn að taka út langt keppnisbann.
André Onana er búinn að taka út langt keppnisbann. AFP

Kamerúnski markvörðurinn André Onana sneri aftur á knattspyrnuvöllinn þegar hann spilaði með landsliði Kamerún í 4:0-sigri gegn Malaví í undankeppni Afríkuþjóða fyrir HM 2022 á laugardag.

Þetta var fyrsti leikur Onana í rúma níu mánuði eftir að hann var upphaflega dæmdur í 12 mánaða keppnisbann af Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, í kjölfar þess að hann féll á lyfjaprófi.

Onana sagði í upphafi ársins þegar hann féll á lyfjaprófinu að hann hefði gert mannleg mistök þegar hann ætlaði að taka aspiríntöflu en innbyrti þess í stað lyf sem er bannað af Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnuninni (WADA).

Því hygðist hann áfrýja banninu til Alþjóðaíþróttadómstólsins. Það gerði Onana í júní á þessu ári og stytti dómstóllinn þá bannið um þrjá mánuði svo það yrði þess í stað níu mánuðir.

Banninu lauk í upphafi mánaðarins og var Onana á varamannabekk Ajax, félagsliðs síns, um þarsíðustu helgi þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Go Ahead Eagles í hollensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert