Samband enskra neðrideildar liða í knattspyrnu, EFL, hefur tilkynnt að B-deildarliðið Derby County muni missa níu stig til viðbótar við þau tólf sem voru dregin af þeim í haust eftir að liðið fór í greiðslustöðvun.
Félagið missir stigin níu eftir að hafa gengist við því að brjóta gegn reglum EFL er tengjast arðsemi og sjálfbærni. Derby getur svo misst þrjú stig til viðbótar uppfylli það ekki viss skilyrði sem tengjast samkomulagi milli sambandsins og félagsins.
Derby hafði áfrýjað úrskurðinum um að missa stigin tólf en hefur nú samþykkt að gangast við þeim úrskurði.
Báðar ákvarðanir eru endanlegar og getur Derby því ekki áfrýjað stigamissinum, sem er nú alls 21 stig og gæti sem áður segir orðið allt að 24 stig.
Því blasir fall niður í C-deildina við Derby, sem er eftir úrskurð dagsins með -3 stig á botni B-deildarinnar, 18 stigum frá öruggu sæti.