Holland á HM - Noregur situr eftir

Virgil Van Dijk varnarmaður Hollands og Alexander Sørloth sóknarmaður Noregs …
Virgil Van Dijk varnarmaður Hollands og Alexander Sørloth sóknarmaður Noregs í baráttunni í kvöld. AFP

Holland nældi sér í farseðil á HM 2022 í knattspyrnu í kvöld með 2:0 sigri á Noregi þar sem Steven Bergwijn og Memphis Depay skoruðu mörkin undir lok leiks. Norðmenn þurftu sigur til að eiga möguleika á umspilssæti hið minnsta en það gekk ekki upp.

Alls gátu þrjú lið tryggt sér efsta sæti G-riðils áður en umferðin hófst - Holland, Tyrkland og Noregur. Holland og Noregur mættust innbyrðis á meðan Tyrkir heimsóttu Svartfjallaland. Holland tryggði sér efsta sætið með sigrinum og Tyrkland fer í umspilið eftir 2:1 sigur. Fatos Bekiraj kom Svartfjallalandi yfir en Kerem Akturkoglu og Orkun Köcku sneru taflinu við fyrir Tyrkland. Einn leikur til viðbótar fór fram í riðlinum en þá mættust tvö neðstu lið riðilsins, Lettland og Gíbraltar. Liam Walker kom Gíbraltar yfir en Vladislavs Gutkovskis jafnaði fyrir Letta. Roberts Uldrikis og Raimonds Krollis bættu svo mörkum fyrir Lettland í síðari hálfleik og niðurstaðan því 3:1.

Úr E-riðli fara bæði Tékkland og Wales í umspilið. Wales tryggði sér 2. sæti riðilsins með 1:1 jafntefli gegn Belgum, sem höfðu fyrir leik tryggt sér farseðilinn á HM. Kevin De Bruyne kom Belgíu yfir á 12. mínútu en Kieffer Moore jafnaði fyrir Wales á 32. mínútu. Tékkland fer í umspilið vegna árangurs í Þjóðadeildinni en þeir unnu Eistland 2:0 í kvöld þar sem Jakub Brabec og Jan Sýkora skoruðu mörkin.

Í D-riðli var það svo Úkraína sem tryggði sig inn í umspilið með 2:0 sigri gegn Bosníu. Oleksandr Zinchenko, leikmaður Manchester City á Englandi, kom Úkraínu yfir á 58. mínútu áður en Artem Dovbyk tvöfaldaði forystuna. Finnland situr eftir með sárt ennið en þeir töpuðu 2:0 gegn toppliði Frakklands þar sem Karim Benzema og Kylian Mbappé skoruðu. Þar sem að Úkraína vann sinn leik hefðu Finnar einnig þurft að vinna en það gekk ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert