Munum fara á HM og jafnvel vinna mótið

Roberto Mancini lætur í sér heyra á hliðarlínunni í Belfast …
Roberto Mancini lætur í sér heyra á hliðarlínunni í Belfast í gærkvöldi. AFP

Evrópumeistarar Ítalíu fóru illa að ráði sínu í gærkvöldi þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Norður-Írland í lokaleik C-riðils í undankeppni Evrópuþjóða fyrir HM í Katar í knattspyrnu karla á næsta ári.

Með því missti Ítalía efsta sæti riðilsins í hendur Sviss, sem fer beint á HM en Ítalía þarf að fara í umspil um sæti á mótinu.

Þar munu tólf Evrópuþjóðir etja kappi og berjast um aðeins þrjú sæti á HM. Umspilið fer fram í mars á næsta ári.

„Við munum tryggja okkur sæti á heimsmeistaramótinu í mars og svo munum við jafnvel vinna það. Ég hef engar áhyggjur,“ sagði Roberto Mancini, þjálfari Ítalíu, eftir leikinn í Belfast í gærkvöldi.

Hann sagði liðið þurfa að finna fjöl sína á ný. „Þrátt fyrir að stjórna leikjum eigum við í erfiðleikum með að stjórna leikjum. Við hefðum þurft að skora snemma í kvöld.

Þetta er synd og skömm því við hefðum átt að gera út um þennan riðil fyrr. Við þurfum að finna aftur það sem skapaði okkur sérstöðu þar til nú og halda ró okkar fram til mars.

Við hefðum átt að vinna leikinn gegn Búlgaríu og áttum að fá tvær vítaspyrnu gegn Sviss. Þetta eru leikir sem hefðu getað endað okkur í hag. Ég hef ekki nokkrar einustu áhyggjur af umspilinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert