Stuðningsmönnum enska knattspyrnufélagsins West Ham United hefur verið meinað að fara á leik liðsins gegn Rapid Vín í Austurríki í Evrópudeilinni vegna óláta í leik West Ham gegn Genk í sömu keppni.
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, úrskurðaði stuðningsmenn Hamranna í bann eftir að þeir köstuðu hlutum, þar á meðal íkveiktu blysi, inn á Cegeka-völlinn í Genk þegar liðin gerðu 2:2 jafntefli í H-riðli Evrópudeildarinnar í upphafi mánaðarins.
Auk þess þarf West Ham að borga 30.000 pund í sekt.
West Ham hefur þegar selt alla 1.700 miðana sem þeim var úthlutað fyrir leikinn gegn Rapid Vín í næstu viku.
Í yfirlýsingu frá West Ham segir að félagið sé hissa á úrskurðinum og vonsvikið fyrir hönd stuðningsmanna sinna.
Félagið mun fara þess á leit við UEFA að fá vel rökstuddar ástæður fyrir þessum úrskurði með hraði.
Áfrýji West Ham úrskurðinum getur félagið óskað eftir því að banninu verði frestað á meðan áfrýjunin er tekin fyrir.