Stuðningsmenn Hamranna í bann

Stuðningsmenn West Ham United fá ekki að fara til Vínarborgar.
Stuðningsmenn West Ham United fá ekki að fara til Vínarborgar. AFP

Stuðningsmönnum enska knattspyrnufélagsins West Ham United hefur verið meinað að fara á leik liðsins gegn Rapid Vín í Austurríki í Evrópudeilinni vegna óláta í leik West Ham gegn Genk í sömu keppni.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, úrskurðaði stuðningsmenn Hamranna í bann eftir að þeir köstuðu hlutum, þar á meðal íkveiktu blysi, inn á Cegeka-völlinn í Genk þegar liðin gerðu 2:2 jafntefli í H-riðli Evrópudeildarinnar í upphafi mánaðarins.

Auk þess þarf West Ham að borga 30.000 pund í sekt.

West Ham hefur þegar selt alla 1.700 miðana sem þeim var úthlutað fyrir leikinn gegn Rapid Vín í næstu viku.

Í yfirlýsingu frá West Ham segir að félagið sé hissa á úrskurðinum og vonsvikið fyrir hönd stuðningsmanna sinna.

Félagið mun fara þess á leit við UEFA að fá vel rökstuddar ástæður fyrir þessum úrskurði með hraði.

Áfrýji West Ham úrskurðinum getur félagið óskað eftir því að banninu verði frestað á meðan áfrýjunin er tekin fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert