Louis van Gaal, þjálfari hollenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, mun ekki láta óhapp sem hann varð fyrir á hjóli um helgina koma í veg fyrir að hann stýri liðinu í mikilvægum leik gegn Noregi í undankeppni HM 2022 í kvöld.
Á sunnudaginn féll van Gaal af hjóli sínu og meiddist á mjöðm. Af þeim sökum stýrði hann æfingu Hollendinga í gær úr golfkerru.
Í leiknum gegn Noregi í kvöld verður Holland helst að vinna ætli liðið sér að komast beint á HM, en liðið er í toppsæti G-riðils fyrir lokaumferðina.
Fari svo að Hollendingar tapi gætu þeir misst af umspilssæti einnig, þ.e. ef Tyrkland vinnur leik sinn á útivelli gegn Svartfjallalandi á sama tíma.
Endi báðir leikirnir með jafntefli fer Holland beint á HM og Tyrkland í umspil. Noregur þarf því að öllum líkindum á sigri að halda gegn Hollandi í kvöld til þess að eygja möguleika á því að komast á HM.