Argentína og Brasilía áttust við í undankeppni Suður-Ameríkuþjóða fyrir HM 2022 í knattspyrnu karla í nótt. Þar varð niðurstaðan markalaust jafntefli og bæði lið eru því áfram taplaus í keppninni og búin að tryggja sér sæti á HM.
Brasilía var þegar búið að tryggja sér sæti á HM og Argentína gerði það einnig með jafnteflinu í nótt. Bæði lið eiga eftir fimm leiki í undankeppninni.
Ekvador hélt svo áfram góðu gengi sínu og vann sterkan 2:0 útisigur gegn Síle í nótt.
Pervis Estupinan kom Ekvador yfir strax á níundu mínútu áður en reynsluboltinn Arturo Vidal fékk beint rautt spjald eftir aðeins 14 mínútur.
Moises Caicedo innsiglaði svo sigur Ekvador seint í leiknum, á þriðju mínútu uppbótartíma.
Ekvador heldur þar með þriðja sætinu í undankeppninni og er sex stigum á undan Kólumbíu í fjórða sætinu.
Kólumbía gerði í nótt markalaust jafntefli á heimavelli gegn Paragvæ.
Andrés Cubas í liði Paragvæ fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 84. mínútu en Kólumbíumönnum tókst ekki að nýta sér liðsmuninn á þeim skamma tíma sem eftir lifði leiks.