Cloé Zoe Eyja Lacasse kom liði sínu Benfica yfir í 2:1 sigri gegn Häcken í Meistaradeildinni í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust í Gautaborg.
Mark Cloé kom strax á þriðju mínútu leiksins en Elin Rubensson jafnaði fyrir Häcken úr vítaspyrnu á 74. mínútu. Það var svo Catarina Amado sem skoraði sigurmark Benfica í uppbótartíma. Cloé lék allan leikinn með portúgölsku meisturunum.
Diljá Ýr Zomers kom inn á sem varamaður í liði Häcken á 64. mínútu og lék hún því u.þ.b. hálftíma í leiknum.
Eftir fjóra leiki eru Benfica með fjögur stig í þriðja sæti D-riðils á meðan Häcken eru í því fjórða með þrjú stig. Lyon eru í efsta sætinu með fullt hús stiga eftir þrjá leiki og Bayern München í öðru sæti með fjögur stig. Þau mætast innbyrðis í kvöld.
Í C-riðli unnu Evrópumeistarar Barcelona 5:0 stórsigur á Hoffenheim í Þýskalandi. Alexia Putellas kom katalónska liðinu yfir seint í fyrri hálfleik en þær bættu svo við fjórum mörkum í þeim síðari. Þar voru að verki Irene Paredes, Aitana Bonmatí, Marta Torrejón og Ana-Maria Crnogorcevic.