FIFA rannsakar ólöglegar skiptingar Kongó

Héctor Cúper, þjálfari karlalandsliðs Alþýðulýðveldisins Kongó, hljóp á sig um …
Héctor Cúper, þjálfari karlalandsliðs Alþýðulýðveldisins Kongó, hljóp á sig um helgina. AFP

Knattspyrnusamband Benín heftur lagt fram kvörtun inn á borð Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, vegna framkvæmdar leiks karlalandsliðsins gegn Alþýðulýðveldinu Kongó í undankeppni HM 2022 á sunnudagskvöld.

Kvörtunin snýr að því að Héctor Cúper, þjálfari Kongó, gerði fjórar skiptingar í leiknum. Alls eru fimm skiptingar leyfðar í undankeppnum fyrir HM en þær má aðeins gera í þremur skiptingagluggum.

Cúper gerði hins vegar skiptingar sínar fjórar á fjórum mismunandi tímapunktum í leiknum.

Samkvæmt yfirlýsingu frá knattspyrnusambandi Benín er því um augljóst brot á reglum FIFA að ræða og treystir sambandið því að FIFA geri hið rétta í málinu, þó ekki sé sagt berum orðum hvað það myndi vera.

Mögulegt er að dæma Benín sigur í leiknum vegna þessa afleiks Kongó og annar möguleiki er að láta spila leikinn aftur.

Leikurinn milli Kongó og Benín var úrslitaleikur í J-riðli undankeppni Afríkuþjóða þar sem Kongó komst í umspilið fyrir HM með því að vinna 2:0 á meðan Benín hefði nægt jafntefli til þess að skáka Kongó.

FIFA hefur staðfest í stuttri yfirlýsingu að hafa borist kvörtun vegna málsins og að það verði tekið til skoðunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert