FIFA tekur erindi Suður-Afríku til skoðunar

Daniel Amartey (t.h.) fékk vítaspyrnuna umdeildu.
Daniel Amartey (t.h.) fékk vítaspyrnuna umdeildu. AFP

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur ákveðið að taka umkvörtun suður-afríska knattspyrnusambandsins vegna leiks Suður-Afríku gegn Gana um síðustu helgi í undankeppni HM 2022 til skoðunar.

Suður-afríska knattspyrnusambandið setti spurningamerki við framkvæmd leiksins og ákvarðanir dómaratríósins frá Senegal í 0:1 tapi Suður-Afríku gegn Gana, sem þýðir að Gana er komið áfram í umspil.

Dæmd var vítaspyrna í fyrri hálfleik þar sem Daniel Amartey féll við þrátt fyrir enga sýnilega snertingu. André Ayew tók vítaspyrnuna og skoraði sigurmarkið.

Suður-Afríku nægði jafntefli í leiknum og finnst knattspyrnusambandinu þar í landi sem maðkur hafi verið í mysunni þegar kom að dómgæslu Senegalanna yfir höfuð, þeir hafi ákveðið hvernig leikurinn ætti að fara.

„FIFA hefur borist kvörtun frá suður-afríska knattspyrnusambandinu í tengslum við þetta mál og mun taka það til skoðunar,“ sagði í stuttri yfirlýsingu frá FIFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert